Guardiola langeygur eftir sigri

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, á hliðarlínunni í leik liðsins …
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, á hliðarlínunni í leik liðsins gegn Southampton í dag. AFP

Jafntefli Manchester City gegn Southampton í dag þýðir að liðið hefur nú leikið fimm leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla og Meistaradeild Evrópu án þess að bera sigur úr býtum. Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur þar af leiðandi jafnað lengstu hrinu sína án sigurs sem knattspyrnustjóri. 

Manchester City hefur í þessum leikjum tapað fyrir Tottenham Hotspur og Barcelona og gert jafntefli við Celtic, Everton og Southampton, en sjö ár eru síðan Guardiola þurfti að bíða jafn lengi eftir sigri í mótsleik sem knattspyrnustjóri.  

Sigurganga Guardiola sem knattspyrnustjóri Barcelona var nánast órofin þegar hann stýrði liðinu á árunum 2008 til 2012. Það var hins vegar fimm leikja rof á sigurgöngunni í febrúar árið 2009. Barcelona varð spænskur meistari, vann spænska bikarinn og bar sigur úr býtum í Meistaradeild Evrópu árið 2009. 

Manchester City er á þessum tímapunkti í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, í fínni stöðu í sínum riðli í Meistaradeild Evrópu og enn með bæði í enska bikarnum og enska deildabikarnum. Stuðningsmenn Manchester City ættu því ekki að örvænta strax allavega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert