Guardiola býst við því besta frá United

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Belginn Kevin De Bruyne verður ekki í leikmannahópi Manchester City þegar liðið sækir granna sína í Manchester United heim í enska deildabikarnum í knattspyrnu á morgun.

De Bruyne er meiddur á kálfa og tekur ekki þátt af þeim sökum. Fyrirliði City og samlandi De Bruyne, Vincent Kompany, verður hvíldur á morgun.

„Við þurfum að breyta liðinu eitthvað. Ungir leikmenn munu spila, vegna þess að þeir eiga það skilið og einnig vegna þess að menn eru þreyttir. Við lékum manni færri í 35 mínútur gegn Barcelona í síðustu viku og mættum Southampton í hörkuleik um helgina,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, á blaðamannafundi í dag.

Hann býst við erfiðum leik þrátt fyrir að United hafi tapað 4:0 fyrir Chelsea á sunnudaginn í deildinni. „Ég býst alltaf við því besta frá United. Mourinho hefur gæði og reynslu,“ sagði Guardiola.

„Mín reynsla er sú að það sé alltaf erfitt lið að eiga við. Það skiptir ekki máli hvernig maður spilar á Old Trafford, leikurinn verður alltaf erfiður. Grannaslagur er alltaf sérstakur. Við tökum verkefnið alvarlega og ætlum að vinna leikinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert