Lélegir liðsfélagar

Wanye Rooney og Zlatan Ibrahimovic eftir leik um daginn.
Wanye Rooney og Zlatan Ibrahimovic eftir leik um daginn. AFP

Liðsfélagar Paul Pogba og Zlatan Ibrahimovic hjá Manchester United draga þá niður í svaðið. Áðurnefndir leikmenn hafa ekki leikið vel upp á síðkastið og voru báðir gagnrýndir eftir 4:0-tap United gegn Chelsea á sunnudaginn.

Pogba var keyptur til United á 89 milljónir punda í sumar og Zlatan hefur ekki skorað í síðustu fimm úrvalsdeildarleikjum. Fyrrverandi enski landsliðsmaðurinn Danny Mills telur að United vanti fleiri frábæra leikmenn.

„Ég renndi yfir lið United og spurði mig hversu margir leikmenn þar kæmust í eitt af fimm bestu liðum heims. De Gea, Pogba og Zlatan gerðu það en ekki hinir leikmennirnir,“ sagði Mills í útvarpsþætti hjá BBC í gærkvöldi.

„Ég veit að Pogba hefur verið gagnrýndur mikið, enda er hann dýrasti leikmaður heims. Það getur verið erfitt að standa undir svona rosalegum væntingum. Þegar frábær leikmaður kemur inn í sæmilegt lið getur frábærari leikmaðurinn lent í vandræðum; enda er hann vanur að spila með betri mönnum,“ bætti Mills við.

„Pogba og Zlatan hafa lent í smá vandræðum vegna þess. Aðrir leikmenn eru ekki jafn góðir og þeir og hinir leikmennirnir draga þá niður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert