Arsenal án Lucas í 6-8 vikur

Lucas Pérez spilar ekki með Arsenal næstu vikurnar.
Lucas Pérez spilar ekki með Arsenal næstu vikurnar. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, fór yfir það á fréttamannafundi í dag hvaða leikmenn væru meiddir eða að jafna sig af meiðslum fyrir leikinn gegn Sunderland á morgun.

Wenger staðfesti að framherjinn Lucas Pérez yrði frá keppni næstu sex til átta vikurnar vegna ökklameiðsla. Lucas, eins og hann er kallaður, hefur aðeins leikið þrjá leiki í ensku úrvalsdeildinni eftir komuna frá Deportivo La Coruna í sumar.

Olivier Giroud og Aaron Ramsey hafa hins vegar jafnað sig af meiðslum og verða að öllum líkindum í leikmannahópnum á morgun. Giroud kom inná sem varamaður í deildabikarnum í vikunni. Wenger kvaðst þó þurfa að fara varlega með þessa tvo leikmenn, sérstaklega Ramsey.

Einhver óvissa ríkir um Theo Walcott, Nacho Monreal og Santi Cazorla, en þeir verða prófaðir betur í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert