Mkhitaryan er heill en ekki valinn

Henrikh Mkhitaryan.
Henrikh Mkhitaryan. AFP

Henrikh Mkhitaryan, armenski miðjumaðurinn í liði Manchester United, er ekki að glíma við meiðsli heldur er hann einfaldlega ekki valinn í liðið.

José Mourinho hefur verið gagnrýndur fyrir að tefla hinum 27 ára gamla Mkhitaryan ekki fram, sérstaklega þegar illa gekk hjá liðinu. Hann kostaði 30 milljónir punda og kom til liðsins í sumar, en stuðningsmenn United hafa margir látið í ljós óánægju sína með það að fá ekki að sjá hvað í hann er spunnið.

„Stundum tekur tíma fyrir menn að koma inn í nýtt lið. Mkhitaryan var frá vegna meiðsla í mánuð, sem kom í veg fyrir aðlögun hans. Auðvitað trúum við á hann og fyrr en seinna mun hann spila,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi í dag.

Mkhitaryan hefur aðeins tekið þátt í fjórum leikjum United á tímabilinu og aðeins spilað í samtals 104 mínútur. Hann hefur verið orðaður við brottför strax í janúarglugganum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert