Okkur vantar meiri gæði

Mauricio Pochettino gengur vonsvikinn af velli eftir leikinn í Mónakó …
Mauricio Pochettino gengur vonsvikinn af velli eftir leikinn í Mónakó í kvöld. AFP

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, sagði eftir ósigurinn gegn Mónakó í Meistaradeild Evrópu í kvöld, 2:1, að lið sitt skorti meiri gæði til þess að geta gert raunhæfar kröfur um að ná lengra á þessum vettvangi.

Tottenham hefur tapað þremur af fimm leikjum sínum í riðlakeppninni og á nú ekki lengur möguleika á að komast í 16-liða úrslit. 

„Það er gott fyrir okkur að læra af þessu fyrir framtíðina. Ef við verðum aftur í Meistaradeildinni næsta vetur og reynum að ná lengra þar og í úrvalsdeildinni, gætum við þurft að gera breytingar. Þetta var áskorun fyrir okkur, við fengum tækifæri til að sýna hvar við værum staddir. Það er rétt að á tveimur og hálfu ári höfum við saxað á bestu liðin. En til að geta gert kröfur um að ná alla leið í Meistaradeildinni og úrvalsdeildinni verðum við að gera betur, og kannski bæta meiri gæðum í okkar lið,“ sagði Pochettino við Sky Sports.

„Það hentar okkur líklega betur að vera í Evrópudeildinni, sem yrði  gott fyrir félagið. Við lentum í vandræðum þegar við reyndum að vera samkeppnisfærir og spila bæði á laugardegi og í miðri viku. Kannski líður okkur illa yfir þessu núna en á morgun er nýr dagur. Við verðum að vera bjartsýnir í þessu félagi og vera klárir í slaginn. Við eigum stórleik fram undan gegn Chelsea á laugardaginn og þar ætlum við að reyna að sækja sigur,“ sagði Pochettino

Harry Kane jafnaði fyrir Tottenham úr vítaspyrnu strax eftir að liðið lenti undir í byrjun seinni hálfleiks en innan 40 sekúndna hafði Mónakó skorað á ný og það reyndist sigurmarkið.

„Fyrri hálfleikur var frekar opinn og vel spilaður. Í seinni hálfleik fengum við á okkur mark, svöruðum með vítaspyrnunni en það voru mikil vonbrigði að horfa upp á annað markið sem við fengum á okkur. Þetta var hörkuleikur gegn þeim eins og á Wembley. Við höfðum ekki heppnina með okkur og sýndum ekki nægilega mikil gæði. Við förum ekki í næstu umferð í Meistaradeildinni og við verðum að gleyma henni og vera tilbúinir í næsta leik gegn Chelsea,“ sagði argentínski stjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert