„Þetta er ótrúlega vandræðalegt“

Samherjarnir voru ekki miklir vinir í gær.
Samherjarnir voru ekki miklir vinir í gær. Skjáskot/Twitter

Simon Grayson, knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins Preston, segir að atvik sem átti sér stað í leik Sheffield Wednesday og Preston í gær hafi verið „ótrúlega vandræðalegt“.

Samherjarnir Eoin Doyle og Jermaine Beckford voru reknir af leikvelli eftir slagsmál á vellinum og verða líklega báðir dæmdir í þriggja leikja bann. Ástæða slagsmálana var sú að Doyle gaf ekki boltann á Beckford, sem taldi sig vera í góðri stöðu til að skora undir lok leiksins, sem Wednesday vann 2:1.

„Ég hef verið viðriðinn knattspyrnu í 30 ár og aldrei hef ég lent í neinu þessu líku,“ sagði Grayson eftir leikinn í gær.

„Ég talaði við þá báða í búningsklefanum og þeir báðust afsökunar. Það þýðir hins vegar ekki að málinu sé lokið, svona nokkuð ætti aldrei að gerast hjá atvinnumönnum,“ bætti Grayson við.

„Þetta er ótrúlega vandræðalegt. Ég stend með mínum mönnum og vil ekki gagnrýna þá opinberlega. Ég get hins vegar með engu móti reynt að réttlæta þessa hegðun,“ sagði hundfúll knattspyrnustjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert