Okaka opnaði markareikning hjá Watford

Watford lagði Everton að velli, 3:2, þegar liðin mættust í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Vicarage Road í hádeginu í dag. Stefano Okaka skoraði tvö marka Watford og Sebastian Prödl bætti þriðja markinu við. Romelu Lukaku skoraði bæði mörk Everton.

Okaka skoraði í dag fyrstu mörk sín fyrir Watford, en hann gekk til liðs við félagið frá belgíska liðinu Anderlecht í sumar. Þá skoraði Prödl fyrsta mark sitt fyrir Watford á yfirstandandi leiktíð. Lukaku skoraði hins vegar sitt níunda deildarmark fyrir Everton þegar hann minnkaði muninn fyrir liðið undir lok leiksins. 

Watford skaust upp í sjöunda sæti deildarinnar með þessum sigri, en liðið hefur 21 stig líkt og Manchester United sem er sæti ofar sökum hagstæðari markatölu. Everton er hins vegar í níunda sæti deildarinnar með 20 stig. 

90. Leik lokið með 3:2-sigri Watford. 

90. Skipting hjá Watford. Juan Camilo Zuniga fer af velli og Christian Kabasele kemur inná. 

90. Fjórum mínútum bætt við venjulegan leiktíma. 

86. MAAAARK. 3:2. Romelu Lukaku strengir líflínu fyrir Everton þegar hann skorar með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá Aaron Lennon. Nær Everton að næla sér í stig með jöfnunarmarki undir lok leiksins?

83. Skipting hjá Everton. Leighton Baines fer af velli og Aaron Lennon kemur inná. 

81. Skipting hjá Watford. Stefano Okaka fer af velli og Ben Watson kemur inná. 

74. Holebas, leikmaður Watford, er áminntur með gulu spjaldi. 

71. Skipting hjá Everton. Kevin Mirallas fer af velli og Enner Valencia kemur inná. 

65. Skipting hjá Everton. Idrissa Gana Gueye fer af velli og Ross Barkley kemur inná. 

63. MAAARK. 3:1. Stefano Okaka tvöfaldar forystu Watfod með öðru marki sínu í leiknum og aftur er það fast leikatriði frá Jose Holebas sem skapar markið, en að þessu sinni skorar Okaka með skalla eftir hornspyrnu Holebas. 

62. Baines, leikmaður Everton, er áminntur með gulu spjaldi. 

61. Skipting hjá Watford. Adlene Guedioura fer af velli og Daryl Janmaat kemur inná. 

59. MAAARK. 2:1. Sebastian Prödl kemur Watford yfir þegar hann stangar inn hnitmiðaða fyrirgjöf frá Jose Holebas úr aukaspyrnu. Þetta er fyrsta mark Prödl fyrir Watford á leiktíðinni. 

46. Seinni hálfleikur er hafinn á Vicarage Road. 

45. Hálfleikur á Vicarage Road þar sem staðan er 1:1. Romelu Lukaku kom Everton yfir og Stefano Okaka jafnaði metin fyrir Watford. 

36. MAAARK. 1:1. Stefano Okaka jafnar metin fyrir Watford með einkar huggulegri hælspyrnu. Okaka opnar markareikning sinn fyrir Watford með þessu afskaplega snotra marki. 

17. MAAARK. 0:1. Romelu Lukaku kemur Everton yfir með skoti af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf frá Gareth Barry. Lukaku þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að skora áttunda deildarmark sitt á yfirstandandi leiktíð.  

15. Deulofeu, leikmaður Everton, er áminntur með gulu spjaldi.  

7. Guedioura, leikmaður Watford, er áminntur með gulu spjaldi. 

1. Leikurinn er hafinn á Vicarage Road. 

0. Everton er fyrir leik liðanna í áttunda sæti deildarinnar með 20 stig á meðan Watford hefur 18 stig í 11. sæti deildarinnar.

Byrjunarlið Watford: Gomes - Zuniga, Prödl, Britos, Holebas - Guedioura, Behrami, Capoue, Amrabat - Okaka, Deeney. 

Byrjunarlið Everton: Stekelenburg - Coleman, Williams, Funes Mori, Baines - Barry, Gana, McCarthy - Deulofeu, Mirallas, Lukaku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert