Coutinho braggast virkilega vel

Philippe Coutinho, leikmaður Liverpool, liggur á vellinum eftir að hafa …
Philippe Coutinho, leikmaður Liverpool, liggur á vellinum eftir að hafa meiðst á ökkla í leik liðsins gegn Sunderland. AFP

Brasilíski sóknartengiliðurinn Philippe Coutinho hefur ekki leikið með Liverpool vegna meiðsla undanfarið. Búist var við því að Coutinho yrði fjarri góðu gamni vegna meiðslanna í fimm vikur.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kveikti þá von í brjóstum stuðningsmanna Liverpool um að Coutinho gæti leikið með liðinu gegn Manchester City á gamlársdag á blaðamannafundi í gær.

Coutinho hafði skorað sex mörk og gefið fimm stoðsendingar í þeim 14 leikjum sem hann hafði leikið í deildinni í vetur þegar hann meiddist á ökkla í 2:0-sigri liðsins gegn Sunderland 26. nóvember síðastliðinn.

„Endurhæfing Coutinho hefur gengið vonum framar og ég er að vonast til þess að hann verði klár í slaginn þegar við mætum Manchester City. Coutinho er að verða mun betri með hverjum deginum og það væri frábært ef hann gæti verið með í leiknum gegn Manchester City,“ sagði Klopp um bata Coutinho. 

Liverpool mætir Everton í nágrannaslag á mánudaginn kemur, fær síðan Stoke City í heimsókn á Anfield 27. desember og leikur við Manchester City á heimavelli á gamlársdag. Jólatörn Liverpool lýkur svo þegar liðið heimsækir Sunderland 2. janúar.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert