Hefði getað farið 0:0 hjá sterkasta liði Liverpool

Jürgen Klopp gat ekkert verið of hress með gang mála …
Jürgen Klopp gat ekkert verið of hress með gang mála í dag á Anfield. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var súr eftir markalaust jafntefli gegn D-deildarliði Plymouth Argyle í þriðju umferð enska bikarsins en hélt því fram að sterkasta byrjunarlið Liverpool hefði mögulega ekki getað náð betri úrslitum.

Klopp gerði 10 breytingar frá 2:2 jafntefli liðsins gegn Sunderland fyrir skemmstu og hóf Liverpool leik með meðalaldurinn undir 22 árum þrátt fyrir að Brasilíumaðurinn Lucas Leiva, sem er 29 ára gamall, hafi byrjað inni á.

„Þeir gáfu okkur lítið pláss og gerðu okkur erfitt fyrir,“ sagði Klopp.

„Það er ekki auðvelt að gera leik eins og þennan spennandi. Við vorum með ungt lið og það var því erfitt. Við getum gert betur og ef við gerum betur eigum við góðan möguleika á að komast í næstu umferð,“ sagði Klopp.

„Ef við hefðum notað hitt liðið okkar er samt möguleiki á að úrslitin hefðu orðið þau sömu. Ekki líklegt, en mögulegt. Þetta var góð reynsla fyrir strákana,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert