Ævintýri hjá utandeildaliðum

Paul Doswell knattspyrnustjóri Sutton fagnar í leikslok gegn Wimbledon í …
Paul Doswell knattspyrnustjóri Sutton fagnar í leikslok gegn Wimbledon í kvöld. AFP

Tvö lið sem leika utan ensku deildakeppninnar í knattspyrnu og spila í fimmtu efstu deild tryggðu sér í kvöld sæti í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar með óvæntum sigrum á mun hærra skrifuðum andstæðingum.

Lincoln City, sem er efst í E-deildinni, gerði sér lítið fyrir og vann B-deildarlið Ipswich Town, 1:0, en liðin höfðu áður gert markalaust jafntefli í Ipswich. Nathan Arnold skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins.

Lincoln fær heimaleik gegn Brighton, næstefsta liði B-deildar.

Sutton United, sem er í 15. sæti E-deildarinnar, sótti heim C-deildarlið Wimbledon og knúði þar fram sigur, 3:1, en liðin gerðu áður markalaust jafntefli á heimavelli Sutton. Maxime Biamou og Dan Fitchett skoruðu fyrir Sutton í uppbótartíma leiksins þegar allt stefndi í framlengingu.

Sutton fær nú B-deildarlið Leeds United í heimsókn í 4. umferðinni. Sömu félög mættust í keppninni árið 1970, á sama stað í keppninni. Leeds var þá ríkjandi Englandsmeistari og vann leikinn 6:0.

Christian Benteke tryggði Crystal Palace sæti í 4. umferðinni með því að skora tvívegis gegn C-deildarliði Bolton, sem hafði komist yfir í leiknum, en lokatölur urðu 2:1. Palace mætir næst Manchester City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert