Englandsmeistararnir jafna met

Claudio Ranieri þarf að finna lausnir á leik sinna manna.
Claudio Ranieri þarf að finna lausnir á leik sinna manna. AFP

Englandsmeistarar Leicester City fengu þann vafasama heiður í dag að jafna stigamet Ipswich Town í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Metið er af verri endanum þar sem titilvörn Englandsmeistara hefur aldrei gengið verr fyrir sig en hjá Leicester í ár. 

Leicester er með 21 stig eftir 22 leiki eftir 3:0 tapið gegn Southampton í dag og var það annað 3:0 tap þeirra í röð. Leicester tapaði einnig 3:0 fyrir Chelsea í síðustu umferð.  

Englandsmeistararnir eru í 15. sæti deildarinnar og aðeins fimm stigum á undan Crystal Palace sem er í fallsæti. 

Eins og flestir vita varð Leicester City Englandsmeistari á síðustu leiktíð, í einu óvæntasta íþróttaafreki sögunnar. 

Nú hefur liðinu gengið jafnilla í titilvörn sinni og Ipswich Town gerði tímabilið 1962-1963, en eftir að hafa óvænt orðið enskur meistari 1962 endaði liðið í 17. sæti árið eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert