Bætti Rooney ekki metið?

Wayne Rooney og Bobby Charlton hafa báðir raðað inn mörkum …
Wayne Rooney og Bobby Charlton hafa báðir raðað inn mörkum fyrir United, en hvor á markametið? AFP

Ekki eru allir sammála um það að Wayne Rooney hafi slegið markamet Bobby Charlton hjá Manchester United þegar Rooney skoraði í 1:1-jafnteflinu við Stoke um helgina.

Yfirlýst félagsmet Charltons var 249 mörk en Rooney er nú kominn með 250 mörk og búinn að setja met sem ljóst er að mun standa lengi. Eða hvað?

Í frétt The Independent er bent á að Charlton hafi vissulega skorað 249 mörk í 758 leikjum fyrir United þar til 28. apríl 1973. Eftir það hafi hann hins vegar farið og spilað í ensk-ítalska bikarnum hinn 2. maí sama ár. Charlton skoraði þar tvö mörk í leik gegn Verona, en leikurinn var skipulagður af enska og ítalska knattspyrnusambandinu, og viðurkenndur af UEFA. Þannig töldu til að mynda áminningar í leiknum og leikmenn gátu fengið leikbann. Því má halda því fram að Charlton hafi skorað 251 mark fyrir United.

United hefur hins vegar ekki viljað telja leikinn með í sínum metabókum, og þar er Wayne Rooney því orðinn efstur á blaði sem markahæsti leikmaður í sögu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert