Leicester fagnar jafntefli Alsír

Islam Slimani, leikmaður Leicester, skorar fyrir Alsír gegn Senegal í …
Islam Slimani, leikmaður Leicester, skorar fyrir Alsír gegn Senegal í leiknum í kvöld. AFP

Stuðningsmenn Englandsmeistara Leicester City eru eflaust afar ánægðir með úrslitin í leik Senegal og Alsír í riðlakeppni Afríkumótsins í knattspyrnu í Gabon í kvöld.

Liðin skildu jöfn, 2:2, í lokaumferð riðlakeppninnar og það þýðir að Alsír kemst ekki áfram, sem er afar óvænt niðurstaða. Senegal vann riðilinn með 7 stig og Túnis fékk 6 stig en bæði lið fara í átta liða úrslit. Alsír með 2 stig og Simbabve með 1 stig eru úr leik.

Alsírbúar þóttu með sigurstranglegri liðum en halda nú heim án þess að hafa unnið leik. Í liði þeirra eru Ryiad Mahrez og Islam Slimani, tveir lykilmanna Leicester City, sem fær nú kappana heim frá Gabon mun fyrr en búist var við. Ekki veitir af, miðað við stöðu meistaranna í ensku úrvalsdeildinni um þessar mundir.

Slimani skoraði bæði mörk Alsír í kvöld en það dugði ekki því Papakouly Diop og Moussa Sow jöfnuðu metin í tvígang fyrir Senegal.

Watford-menn geta líka glaðst því þeir fá Adlene Guedioura, miðjumann frá Alsír, aftur í sínar raðir.

Sadio Mané frá Liverpool, Idrissa Gueye frá Everton, Mame Biram Diouf frá Stoke og Cheikou Kouyaté frá West Ham leika allir með Senegal og eru því ekki á heimleið strax. Sama er að segja um Wahbri Kazhri frá Túnis, sem er leikmaður Sunderland, sem hins vegar endurheimtir Didier Ndong, leikmann Gabon, en heimaliðið féll úr keppni í gær eftir þrjú jafntefli í þremur leikjum.

Auk Senegal og Túnis eru Gana, Burkina Faso og Kamerún komin í átta liða úrslit Afríkumótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert