Jafntefli í stórleiknum á Anfield

Georginio Wijnaldum fagnar marki sínu í kvöld.
Georginio Wijnaldum fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Liverpool og Chelsea skildu jöfn, 1:1, í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Anfield í kvöld.

Brasilíumaðurinn David Luiz kom Chelsea yfir á 24. mínútu þegar hann skoraði með laglegu skoti beint úr aukaspyrnu. Georginio Wijnaldum jafnaði metin með skalla af stuttu færi á 56. mínútu og stundarfjórðungi fyrir leikslok fékk Chelsea dæmda vítaspyrnu þegar Diego Costa var felldur.

Costa fór sjálfur á vítapunktinn en Simon Mignolet gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna og niðurstaðan varð 1:1 jafntefli. Chelsea er með níu stiga forskot á toppi deildarinnar. Liðið hefur 57 stig en Liverpool er í fjórða sætinu með 46 stig, er stigi á eftir Arsenal.

Bein lýsing:

90+3 Leiknum er lokið.

89. Varamaðurnn Pedro var nálægt því að tryggja Chelsea sigurinn en boltinn smaug fram hjá eftir skot Spánverjans.

76. VÍTI VARIÐ! Simon Mignolet ver vítaspyrnu frá Diego Costa sem hann fékk sjálfur.

74. Sadio Mané er kominn inn á í liði Liverpool fyrir Phillipe Coutinho.

67. Liverpool hefur verið töluvert sterkari aðilinn í síðari hálfleik. En fáum við sigurmark öðru hvoru megin?

56. MARK! Liverpool er búið að jafna metin. Hollendingurinn Georginio Wijnaldum skoraði með skalla af stuttu færi. Hans þriðja mark á tímabilinu.

51. Victor Moses fékkk boltann á silfurfati í vítateig Liverpool. Skot hans fór í utanverða stöngina.

49. Liverpool fékk gullið tækifæri til að jafna metin en Firmino mokaði boltanum hátt yfir markið.

47. Chelsea hefur ekki tapað leik á tímabilinu eftir að hafa komist yfir. Ekki góð tíðindi fyrir Liverpool sem hefur tapað þremur heimaleikjum í röð.

46. Síðari hálfleikur er hafinn. Liðin eru óbreytt.

45+2 Mark Clattenburg er búinn að flauta til leikhlés á Anfield þar sem topplið Chelsea er 1:0 yfir.

43. Það er ekki líklegt að Sadio Mané komi við sögu með Liverpool í kvöld en hann situr á bekknum með kælipoka um hnéð.

39. Liverpool gengur illa að skapa sér færi gegn vel skipulögðu Chelsea-liði sem er enn 1:0 yfir á Anfield.

David Luiz fagnar marki sínu á Anfield í kvöld.
David Luiz fagnar marki sínu á Anfield í kvöld. Ljósmynd/twitter

24. MARK!! Chelsea er komið yfir á Anfield. David Luiz skoraði markið með glæsilegu skoti beint úr aukaspynru. Stöngin og inn! Mignolet markvörður var að stilla upp veggnum og var alls ekki viðbúinn spyrnu Brasilíumannsins.

18. Chelsea hefur verið að koma sér æ meira inn í leikinn en við bíðum enn eftir færum og mörkum í þessum stórleik.

12. Wijnaldum átti þrumuskot utan vítateigs en Courtois var vandanum vaxinn í marki Chelsea og varði vel.

8. Liverpool hefur ráðið ferðinni þessar fyrstu mínútur en hefur ekki náð að skapa sér færi.

3. Það er hellrigning í Liverpool og völlurinn er vel blautur.

1. Mark Clattenburg hefur flautað leikinn á.

Lið Liverpool: Mignolet, Clyne, Lovren, Matip, Milner, Henderson, Can, Wijnaldum, Lallana, Coutinho, Firmino.

Lið Chelsea: Courtois; Azpilicueta, David Luiz, Cahill; Moses, Kante, Matic, Alonso; Willian, Diego Costa, Hazard.

0. Chelsea trónir á toppi deildarinnar og eru tíu stigum á undan Liverpool sem er í fjórða sætinu.

0. Liverpool hefur gengið afar illa í janúar en liðið hefur aðeins unnið einn af átta leikjum sínum í öllum keppnum. Liðið hefur tapað þremur heimaleikjum í röð, gegn Swansea í deildinni, Southampton í ensku deildabikarkeppninni og gegn Wolves í ensku bikarkeppninni.

0. Liverpool hafði betur þegar liðin mættust í fyrri leiknum á Stamford Bridge, 1:2. Dejan Lovren og Jordan Henderson skoruðu mörk Liverpool en Diego Costa fyrir Chelsea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert