Wenger gæti róið á önnur mið

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segist ekkert vera á þeim buxunum að hætta í þjálfun en framtíð hans í stjórastarfinu hjá Arsenal er í mikilli óvissu eftir skellinn gegn Bayern München í Meistaradeildinni í fyrrakvöld þar sem Arsenal steinlá, 5:1.

„Hvað sem gerist þá held ég áfram að þjálfa á næstu leiktíð hvort sem það verður hér hjá Arsenal eða annars staðar,“ sagði Wenger á vikulegum fréttamannafundi í morgun.

„Eðlilega voru allir vonsviknir eftir þessi úrslit í München en við þurfum bara að einblína á næsta leik. Það voru engin rifrildi í klefanum eftir leik eins og sumir fjölmiðlar hafa haldið fram. Í augnablikinu höfum við aðrar áherslur heldur en um mína framtíð. Knattspyrnufélagið Arsenal er það mikilvægasta en ekki bara ég,“ sagði Wenger.

„Ég hata að tapa og það var erfitt að kyngja þessu en við höfum styrk og reynslu til að koma sterkir til baka,“ sagði Wenger en hans menn sækja utandeildarliðið Sutton United heim í ensku bikarkeppninni á mánudaginn.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert