Jóhann Berg úr leik næstu vikurnar

Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. Ljósmynd/@BurnleyOfficial

Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson leikmaður Burnley verður frá keppni næstu vikurnar vegna meiðsla sem hann varð fyrir í bikarleiknum gegn utandeildarliðinu Lincoln á laugardaginn.

Vefmiðillinn 433.is greinir frá þessu en Jóhann Berg haltraði af velli eftir 20 mínútna leik, skömmu eftir að hafa lent í harkalegri tæklingu. Við myndatöku í dag kom í ljós rifa í liðbandi í hné landsliðsmannsins.

„Ég er búinn að skoða leikina hjá okkur og stefni á að vera klár gegn Sunderland 18 mars, það er leikurinn fyrir landsleikjahlé,“ sagði Jóhann Berg í samtali við 433.is en hann vonast til að geta spilað leikinn gegn Kósóvó í undankeppni HM sem fram fer í Albaníu 24. mars.

Eins og frægt er orðið tapaði Burnley á heimavelli fyrir utandeildarliðinu, 1:0, og getur því einbeitt sér alfarið að deildinni en nýliðar Burnley eru í 12. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert