Þægilegt hjá United

Paul Pogba og Jordan Veretout berjast um boltann í dag.
Paul Pogba og Jordan Veretout berjast um boltann í dag. AFP

Manchester United komst vandræðalaust áfram í 16-liða úrslitin í Evrópudeildinni í knattspyrnu í kvöld.

United sótti Saint-Étienne heim og fagnaði 1:0 sigri og samanlagt, 4:0. Armeninn Henrik Mkhitaryan skoraði sigurmark leiksins á 16. mínútu og eftir það gerðist fátt markvert í leiknum. United lék af skynsemi og heimamenn náðu aldrei að ógna marki Manchester-liðsins.

Vondu tíðindin fyrir United var að Mkhitaryan fór meiddur af velli skömmu eftir að hafa skorað markið og hann gæti þar með misst af úrslitaleiknum gegn Southampton í deildabikarnum á Wembley á sunnudaginn. Miðvörðurinn Eric Bailly var svo vikið af velli á 63. mínútu eftir að hafa nælt sér í tvö gul spjöld á rúmum tveimur mínútum.

Tveir aðrir leikir fóru fram í 32-liða úrslitunum í kvöld. Fenerbache og Krasnodar skildu jöfn, 1:1, og fer Krasnodar áfram samanlagt, 2:1, og Scalke og PAOK skildu jöfn, 1:1, og fer Schalke áfram samanlagt, 3:1.

Bein lýsing frá Saint-Étienne og Manchester United:

90+3 Leiknum er lokið með 1:0 sigri Manchester United.

63. RAUTT! Bailley hefur lokið keppni í dag. Hann var að fá sitt annað gula spjald fyrir brot. Mata er í kjölfarið kallaður af velli og Rojo kemur inn á.

60. Eric Bailley, miðvörður Manchester United, var að næla sér í gult spjald sem þýðir að hann er kominn í leikbann.

57. Sergio Romero markvörður United fagnar 30 ára afmæli sínu í dag. Hann ætlar væntanlega að halda marki sínu hreinu í tilefni dagsins.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

45. Það er kominn hálfleikur í Saint-Étienne þar sem Manchester United er 1:0 yfir og samanlagt 4:0. Fenerbache og Krasnodar eru að gera 1:1 jafntefli og sama staða er í leik Schalke og PAOK.

25. Markaskorarinn Mkhitaryan fer af velli. Líklega um meiðsli að ræða og Marcus Rashford leysir Armenana af hólmi.

21. Tveir aðrir leikir eru í gangi. Krasnodar er komið í 1:0 á útivelli gegn Fenerbache og er samanlagt 2:0 yfir. Markalaust jafntefli er hjá Schalke og PAOK en Schalke vann fyrri leikinn, 3:0.

16. MARK! United er komið í 1:0. Henrik Mkhitaryan skoraði markið af stuttu færi eftir laglega sendingu Juan Mata inn á markteiginn. Staðan er þar með orðin, 4:0, samanlagt. United er svo gott sem komið áfram því heimamenn þurfa að skora fimm mörk og United ekki að skora fleiri til að fara áfram.

15. Staðan er enn markalaus og við bíðum enn eftir fyrsta færi leiksins og hvað þá marki.

2. Það er allt eins víst að Zlatan skori fyrir United í kvöld en hann hefur skorað hvorki fleiri né færri en 17 mörk á móti Saint-Étienne og þar af þrjár þrennur.

1. Leikurinn er hafinn á Stade Geoffroy Guichard-vellinum í Saint-Étienne þar sem Ísland og Portúgal skildu jöfn, 1:1, á EM síðastliðið sumar.

Lið Saint-Étienne: Ruffier, Malcuit, Theophile-Catherine, Perrin, Pogba, Veretout, Pajot, Hamouma, Saivet, Monnet-Paquet, Beric.

Lið Manchester United: Romero, Young, Smalling, Bailly, Blind, Carrick, Pogba, Fellaini, Mata, Mkhitaryan, Ibrahimovic.

0. Manchester United vann fyrri viðureign liðanna á Old Trafford í síðustu viku, 3:0, þar sem Zlatan Ibrahimovic skoraði öll mörk Manchester-liðsins.

0. Spánverjinn Ander Herrera tekur út leikbann í liði United í dag og þá er þeir fjarri góðu gamni þeir Wayne Rooney, Luke Shaw, Matteo Darmian og Phil Jones.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert