Leikmenn Leicester hreinsa af sér sakir

Claudio Ranieri, fyrrverandi knattspyrnustjóri Leicester City.
Claudio Ranieri, fyrrverandi knattspyrnustjóri Leicester City. AFP

Enskir fjölmiðlar hafa gert að því skóna að nokkrir leikmenn Leicester City hafi þrýst á eigendur félagsins að reka Claudio Ranieri úr starfi knattspyrnustjóra félagsins, en hann var látinn taka pokann sinn á fimmtudaginn síðastliðinn.  

Þar hafa nöfn Kasper Schmeichel, Wes Morgan, Riyad Mahrez og Jamie Vardy til að mynda verið nefnd til sögunnar. Þessir leikmenn hafa vísað þessum ásökunum til föðurhúsanna á samfélagsmiðlum og í viðtölum við fjölmiðla um helgina. 

Schmeichel var fyrstur til þess að þvo hendur sínar af brottrekstri Ranieri með hjartnæmri kveðju á Instagram-síðu sinni á föstudagskvöldið og Wes Morgan og Riyad Mahrez fylgdu í fótspor danska markvarðarins í dag. Þá tók Vardy af allan vafa um að hann hefði haft eitthvað með brotthvarf Ranieri að gera með færslu sinni á Instagram-síðu sína síðdegis í dag. 

„Claudio trúði á hæfileika mína þegar fáir aðrir gerðu það og fyrir það á hann ævarandi þakkir skildar. Sögusagnir þess efnis að ég hafi átt þátt í að berjast fyrir því að hann yrði rekinn hafa ratað í fjölmiðla, en þær fregnir eru ekki á rökum reistar og eru særandi fyrir mig,“ sagði Vardy á Instagram-síðu sinni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert