„Þetta er ósatt“

Wenger og Alexis Sánchez takast í hendur á æfingu Arsenal …
Wenger og Alexis Sánchez takast í hendur á æfingu Arsenal í dag. AFP

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal vísar þeim fregnum á bug að Sílemaðurinn Alexis Sánchez hafi rifist við liðsfélaga sínu á æfingu fyrir leikinn á móti Liverpool og hafi í kjölfarið labbað út af æfingunni.

„Þetta er ósatt en ég skil að þið þurfið að fylla í fréttir ykkar í blöðunum og við virðum það. Og þegar þú vinnur ekki leiki þá eru sögurnar ekki réttar,“ sagði Wenger í dag en hann var mjög mikið gagnrýndur fyrir að hafa Sánchez á bekknum í leiknum gegn Liverpool en Sílemaðurinn kom inná í hálfleik í leiknum sem Arsenal tapaði á Anfield, 3:1.

Wenger var spurður út í samskipti hans við Sánchez og hvort hann verði áfram í herbúðum liðsins á næsta tímabili.

„Samband mitt við er heiðarlegt og eðlilegt eins og við alla aðra leikmenn. Sánchez á 15 mánuði eftir af samningi sínum svo ákvörðunin liggur hjá Arsenal og engum öðrum.“

Arsenal er að undbúa sig undir síðari leikinn við þýska meistarana í Bayern München í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar sem fram fer á London annað kvöld en Bayern vann fyrri leikinn á heimavelli sínum, 5:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert