Klopp ánægður með markverðina

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist vera ánægður með þá kosti sem hann hefur í markvarðarstöðunni en báðir markverðir liðsins hafa verið gagnrýndir harðlega á tímabilinu.

Spurður út í markvarðarstöðuna sagði Klopp. „Ég er ánægður með hana flesta daga,“ sagði Klopp.

Simon Mignolet hefur verið gagnrýndur í langan tíma hjá Liverpool og var settur út úr byrjunarliðinu á þessu tímabili vegna frammistöðu sinnar. Loris Karius tók hans stað en spilaði sig út úr því aftur.

„Dag einn kemur það fyrir að markverðir eigi þátt í mörkunum sem þeir fá á sig og það gerist reglulega. Svona er líf markvarðarins. Hann er síðasti varnarmaðurinn,“ sagði Klopp sem sagðist þó ekki vera of ánægður með það þegar slíkt kemur fyrir.

„En ég er ánægður með markverðina okkar, já,“ sagði Klopp.

„Við erum með tvo mjög góða markverði. Við erum með Alex Manninger sem er frábær atvinnumaður og hjálpar liðinu líka. Við erum líka með ungan leikmann á láni (Danny) Ward. Staðan er eins góð og mögulegt er,“ sagði Klopp.

Liverpool mætir Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley á morgun í ensku úrvalsdeildinni.

Simon Mignolet.
Simon Mignolet. AFP
Loris Karius.
Loris Karius. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert