Leikmenn brugðust Wenger

Patrick Viera.
Patrick Viera. AFP

Patrick Viera kemur fyrrverandi knattspyrnustjóra sínum hjá Arsenal til varnar í dag og segir að leikmenn Arsenal hafi brugðist Arsene Wenger stjóra sínum með frammistöðu sinni í Meistaradeild Evrópu þar sem liðið féll úr leik með skottið á milli lappanna.

Bayern München fór illa með Arsenal og vann Lundúnarliðið 5:1 í báðum leikjum, samtals 10:2.

Wenger, sem hefur stýrt Arsenal í 20 ár, er undir mikilli pressu þessa dagana og hefur sjálfur sagt að hann sé ekki búinn að ákveða það hvort hann muni framlengja við félagið bjóðist það. Hann muni einnig taka vilja stuðningsmanna til skoðunar við það val.

„Hann er að ganga í gegnum mjög erfitt tímabil,“ sagði Patrick Viera, sem stýrir nú MLS-liðinu New York City.

„Á sama tíma veit ég að hann er ekki sú persónugerð sem gefst upp og kastar inn hvíta handklæðinu og gengur frá þessum aðstæðum,“ sagði Viera við Sky Sports.

„Það er satt að fólk er að efast um hæfni hans til að stýra liðinu […] en ef þú horfir á leikmennina hafa þeir á stundum verið að bregðast Arsene (Wenger). Stjórar bera ábyrgð, en það gera leikmenn líka,“ sagði Viera sem sagði að sumir lykilmenn liðsins þyrftu sannarlega að líta í spegil.

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert