Pogba er úr leik á næstunni

Paul Pogba liggur meiddur í gær.
Paul Pogba liggur meiddur í gær. AFP

Paul Pogba, miðjumaður Manchester United og dýrasti knattspyrnumaður heims, þurfti að fara af velli vegna meiðsla í 1:0-sigri United gegn Rostov í Evrópudeildinni í gærkvöldi.

Pogba tognaði aftan í læri í byrjun síðari hálfleiks og búist er við að hann verði frá æfingum og keppni næstu þrjár vikurnar. Ljóst er að hann mun missa af leik United og Middlesbrough í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag. Þá mun hann að öllum líkindum missa af landsleikjum Frakka við Lúxemborg og Spán síðar í mánuðinum.

Pogba hefur spilað 41 leik með United á tímabilinu, skorað sjö mörk og lagt upp fimm. Daley Blind fór einnig af velli, að því er virtist vegna höfuðhöggs, en ekki hafa borist fréttir af líðan hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert