Hvað ákvað Wenger?

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Framtíð franska knattspyrnustjórans Arsene Wenger var mjög til umfjöllunar í fjölmiðlum á Bretlandseyjum um helgina og ekki síður hjá stuðningsmönnum Arsenal á samskiptamiðlum. Arsenal er í 6. sæti deildarinnar eftir 3:1 tap fyrir West Bromwich Albion á útivelli á laugardaginn.

Á umliðnum árum hefur staða Arsenal og staða Wengers verið af og til í umræðunni en líklega má fullyrða að sjaldan eða aldrei hafi verið jafnhávær krafa um að Wenger láti gott heita. Slíkt má til dæmis sjá í ýmsum skilaboðum hjá stuðningsmönnum á áhorfendapöllunum.

Ekki liggur fyrir hvort Wenger vilji stýra Arsenal á næsta tímabili en samningur hans rennur út í sumar. Wenger tók á vissan hátt af skarið þegar hann lýsti því yfir að hann væri sjálfur búinn að taka ákvörðun. Sagðist hann ætla að tilkynna ákvörðun sína mjög fljótlega. „Ég veit hvað ég mun gera og ég mun tilkynna það mjög fljótlega. Mér finnst það ekki vera aðalatriðið í dag. Við erum á óvenjuslæmu róli og við höfum ekki kynnst þessu síðustu tuttugu árin. Við töpum leik eftir leik um þessar mundir. Er það mikilvægara en mín framtíð,“ sagði Wenger á blaðamannafundi að loknum leiknum gegn WBA en þar tapaði Arsenal fjórða leiknum af síðustu fimm í úrvalsdeildinni.

Emmanuel Petit, landi Wengers og fastamaður í sterku liði Arsenal seint á síðustu öld, tjáði sig um málið við SFR sport og sagði telja að Wenger yrði áfram. Ef hann ætlaði sér að láta staðar numið hjá Arsenal eftir öll þessi ár væri hann búinn að tilkynna það nú þegar.

Jon Spurling, sem ritað hefur nokkrar bækur um Arsenal, segist á samskiptamiðlum ekki sjá neinn millileik í stöðunni. Annaðhvort hætti Wenger í sumar eða þá að Arsenal geri við hann tveggja ára samning að lágmarki. Ef gerður verður eins árs samningur sé það vísbending um að stjórnin hafi misst trú á Frakkanum.

Sjá allt um enska boltann í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert