Ólíkt því sem ég hef áður upplifað

Arsene Wenger, allt annað en sáttur á hliðarlínunni í kvöld.
Arsene Wenger, allt annað en sáttur á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Arsene Wenger var að sjálfsögðu ekki kátur eftir 3:0 tap lærisveina sinna hjá Arsenal gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. 

Arsenal var mikið meira með boltann en sigur Palace var þrátt fyrir það öruggur, eins og lokatölurnar gefa til kynna, en Arsenal er sjö stigum frá sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

„Þeir virtust tilbúnari en við á mikilvægum augnablikum. Við vorum mikið með boltann en þeir voru sterkari þegar það skipti máli. Auðvitað er þetta mjög leiðinlegt og þetta gæti haft áhrif á hvort við náum sæti í Meistaradeildinni eða ekki,“ sagði Wenger við Sky Sports eftir leik.

„Ég skil hvers vegna stuðningsmennirnir eru óhressir, þeir komu á leikinn og vonuðust eftir sigri. Ég er alltaf áhyggjufullur eftir tap. Ég er búinn að þjálfa í yfir 1.100 leikjum hjá Arsenal og þetta er ólíkt því sem ég hef áður upplifað. Við verðum að vera fljótir að svara fyrir þetta,“ sagði Wenger sem vildi ekki tala um framtíð sína sem þjálfari félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert