Chelsea í úrslit eftir magnaðan leik

Leikmenn Chelsea fagna fjórða marki liðsins í dag.
Leikmenn Chelsea fagna fjórða marki liðsins í dag. AFP

Chelsea tryggði sér í dag sæti í úrslitaleik FA-bikarsins í knattspyrnu eftir sigur á Tottenham, 4:2, í stórskemmtilegum undanúrslitaleik liðanna á Wembley. Þetta var í sjöunda sinn í röð sem Tottenham spilar til undanúrslita en kemst ekki í úrslitin.

Chelsea komst yfir strax á 5. mínútu, þegar Willian skoraði með föstu skoti beint úr aukaspyrnu. Sannkölluð draumabyrjun Chelsea og boðaði heldur betur gott fyrir leikinn. Strax á 18. mínútu jafnaði Tottenham þegar Harry Kane skallaði fyrirgjöf Christian Eriksen með tilþrifum í netið. Staðan 1:1.

Skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks komst Chelsea yfir á ný. Victor Moses var þá felldur klaufalega innan teigs og Willian fór á punktinn. Hann skoraði af miklu öryggi og staðan 2:1 fyrir Chelsea í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik jafnaði Tottenham metin á ný. Aftur var það eftir sendingu Eriksen, sem nú af löngu færi hitti beint á Dele Alli sem skoraði laglegt mark. Staðan 2:2 og leikurinn bráðfjörugur.

Stundarfjórðungi fyrir leikslok komst Chelsea yfir í þriðja sinn í leiknum, þegar varamaðurinn Eden Hazard fékk boltann eftir hornspyrnu og kom honum í markið utarlega í teignum. Staðan 3:2 fyrir Chelsea.

Bestu tilþrif leiksins átti hins vegar Nemanja Matic hjá Chelsea á 80. mínútu þegar hann skoraði fjórða markið. Hann fékk þá sendingu utan teigs, þrumaði á markið og gerði sér lítið fyrir og smurði boltann í samskeytin og inn. Algjörlega stórkostlegt mark og innsiglaði 4:2-sigur Chelsea.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en Chelsea mætir annað hvort Arsenal eða Manchester City í úrslitaleiknum á Wembley.

Nemanja Matic skorar hér fjórða markið og horfir á eftir …
Nemanja Matic skorar hér fjórða markið og horfir á eftir boltanum upp í samskeytin. AFP
Chelsea 4:2 Tottenham opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert