Mætir Mourinho með unglingalið í lokaleikinn?

José Mourinho í leikslok gegn Swansea í gær.
José Mourinho í leikslok gegn Swansea í gær. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, kveðst vera að velta því fyrir sér að tefla fram U23 ára liði félagsins gegn Crystal Palace í lokaumferð úrvalsdeildarinnar í vor, fari svo að United komist í úrslit Evrópudeildarinnar.

Mourinho hefur kvartað undan álagi og hópur hans hefur látið á sjá vegna meiðsla en í gær bættust Luke Shaw og Eric Bailly á þann lista þegar þeir meiddust í jafnteflisleiknum gegn Swansea.

United mætir Celta Vigo í undanúrslitum Evrópudeildarinnar og myndi með því að slá Spánverjana út spila úrslitaleikinn 24. maí, þremur dögum eftir leikinn gegn Crystal Palace.

Í síðustu viku sló Mourinho því fram í hálfkæringi að hann yrði kannski sjálfur í vörninni gegn Palace en kom með aðra hugmynd eftir Swansea-leikinn í gær.

„Okkur er refsað fyrir að ná langt og ef við vinnum Celta spilum við úrslitaleik á miðvikudegi, eftir að hafa spilað gegn Crystal Palace á sunnudeginum á undan. Tveimur dögum áður mætum við Southampton og satt best að segja gætum við lent í hrikalegri stöðu. Kannski fæ ég Nicky Butt (þjálfara 23 ára liðs United) til að mæta með sitt lið gegn Crystal Palace og vonandi þarf Palace þá ekki á stigum að halda til að bjarga sér frá falli, því það yrði mjög slæmt ef við þyrftum að tefla fram 23-ára liðinu okkar í slíkum leik,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert