Zlatan stal senunni (myndskeið)

Zlatan Ibrahimovic með bikarinn á Friends Arena í gærkvöld.
Zlatan Ibrahimovic með bikarinn á Friends Arena í gærkvöld. AFP

Zlatan Ibrahimovic fagnaði vel og innilega með liðsfélögum sínum í Manchester United eftir sigurinn gegn Ajax í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í gær.

Zlatan, sem er frá keppni vegna meiðsla, haltraði um á Friends Arena, vellinum þar sem hann skoraði fjögur mörk í sigri gegn Englendingum hér um árið, og tók þátt í sigurgleði sinna manna og óhætt er að segja að hann hafi stolið senunni.

Þetta var 33. titill Zlatans á ferlinum en Svíinn skoraði 28 mörk með Manchester-liðinu áður en hann meiddist illa á hné í leik á móti Anderlecht í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Framtíð hans með Manchester United er í óvissu.

„Eftir nokkrar vikur verð ég mættur aftur inn á völlinn. Hvar? Það kemur í ljós. Adrenalínið flæddi um líkama minn meðan á leiknum stóð og mér leið eins og ég væri sjálfur úti á vellinum. Við vinnum og töpum saman en nú lyftum við bikar og unnum þrjá titla af fimm sem í boði voru. Þessi var stór,“ sagði Zlatan við fréttamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert