Knattspyrnusambandið styrkir fórnarlömbin

Wembley, þjóðarleikvangur Englendinga.
Wembley, þjóðarleikvangur Englendinga. AFP

Enska knattspyrnusambandið tilkynnti í dag að allur ágóði af leiknum um Samfélagsskjöldinn, sem jafnan markar upphaf á nýju knattspyrnutímabili á Englandi, renni til fórnarlamba brunans í Grenfell-turninum í Lundúnum á dögunum.

Í leiknum um Samfélagsskjöldinn mætast Englandsmeistarar og FA-bikarmeistarar síðasta árs og í ár eru það Chelsea og Arsenal sem leiða saman hesta sína á Wembley. Knattspyrnusambandið vonast til þess að safna rúmri milljón punda, rúmum 130 milljónum króna, þar sem bæði félög ætla að gefa verðlaunafé sitt.

Auk þess mun fjölskyldum fórnarlambanna og þeim sem komust af vera boðið á leikinn. Björgunarfólki í aðgerðunum í brunanum verður einnig boðið á leikinn, sem fer fram sunnudaginn 6. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert