Mahrez til Arsenal í vikunni?

Riyad Mahrez.
Riyad Mahrez. AFP

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Alsíringurinn Riyad Mahrez gæti gengið í raðir Arsenal frá Leicester City í vikunni en eins og fram hefur komið þá óskaði Mahrez eftir því að fá að yfirgefa Leicester í sumar.

Barcelona er óskaliðið sem Mahrez vill fara til en nýráðinn þjálfari Barcelona, Ernesto Valverde, er með annan leikmann í sigtinu. Áður en hann var ráðinn til Katalóníuliðsins var Mahrez sterklega orðaður við Barcelona.

Spænska blaðið Sport segir að Mahrez sé orðinn leiður á að bíða eftir viðbrögðum frá Barcelona og sé nú byrjaður að íhuga tilboð frá Arsenal en Arsene Wenger vill fá Alsíringinn til liðs við sig í sumar.

Talið er að Arsenal þurfi að reiða fram 35 milljónir punda fyrir Mahrez en Leicester greiddi einungis 400 þúsund pund þegar það fékk hann frá franska liðinu Le Havre árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert