Væri himinlifandi að sjá Gylfa í bláu

Allt bendir til þess að Gylfi verði orðinn leikmaður Everton …
Allt bendir til þess að Gylfi verði orðinn leikmaður Everton fyrr frekar en síðar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Everton-goðsögnin Leon Osman vill ólmur sjá landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson ganga í raðir félagsins frá Swansea. Everton lagði fram tilboð upp á rúmar 40 milljónir punda í Gylfa í gær en því var hafnað. Swansea er talið vilja 50 milljónir punda fyrir Gylfa. 

„Ástæða þess að Swansea vill svo hátt verð er sú að Everton fékk mikinn pening með sölunni á Lukaku. Everton bauð um 45 milljónir punda sem er gríðarleg fjárhæð og ég býst ekki við að Everton láti fimm milljónir punda til viðbótar stöðva sig,“ sagði Osman í samtali við talkSPORT. Osman spilaði 433 leiki fyrir Everton á sínum tíma. 

„Ég býst við að Everton gangi frá kaupunum á næstunni. Ég væri himinlifandi að sjá Gylfa í bláu treyjunni. Hefðin er að sóknarsinnaðri leikmenn eru dýrari en aðrir og ég held að Gylfi væri frábær kostur á miðjuna hjá Everton,“ sagði Osman að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert