Gylfi einn þriggja sem geta fyllt skarð Coutinho

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Dean Sounders, fyrrverandi leikmaður Liverpool, nefnir þrjú nöfn sem hann getur séð fyrir sér að geti fyllt skarð Brasilíumannsins Phillippe Coutinho sem er sterklega orðaður við Barcelona.

Gylfi Þór Sigurðsson er einn þeirra þriggja leikmanna sem Sounders nefnir að geti komið til Liverpool í stað Coutinho en Sounders segir að Liverpool eigi að selja Brasilíumanninn fyrir 100 milljónir punda sem er verðmiðinn á honum.

Hinir tveir leikmennirnir sem Sounders nefnir eru Juan Mata leikmaður Manchester United og Spánverjinn Isco, sem leikur með Evrópu-og Spánarmeisturum Real Madrid.

Gylfi hefur verið áberandi í enskum fjölmiðlum síðustu daga og vikur en Everton hefur sótt hart að fá hann í sínar raðir. Swansea hefur þegar hafnað tveimur tilboðum frá Everton í Gylfa en ef marka má frétt netmiðilsins Wale­son­line í gærkvöld eru félagaskipti Gylfa til Everton nú orðin ólíkleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert