Héldu að þær hefðu étið sig inn í sinina

Santi Cazorla fagnar marki í leik með Arsenal.
Santi Cazorla fagnar marki í leik með Arsenal. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Santi Cazorla sem leikur með Arsenal hélt um tíma að ferillinn væri á enda eftir alvarleg meiðsli á hásin sem hafa haldið honum utan vallar undanfarna níu mánuði.

Cazorla sagði í viðtali við spænsku útvarpsstöðina Onda Cero að hann vissi ekki enn hvenær hann gæti snúið til baka á fótboltavöllinn. 

„Ég er enn alveg kraftlaus í fætinum, enda eru bara tvær vikur síðan ég var skorinn upp. Vöðvarnir eru máttlausir og sinarnar líka og við erum fyrst og fremst að vinna í því að fá hásinina til að virka á ný,“ sagði Cazorla sem er 32 ára gamall og hefur leikið með Arsenal frá 2012 og á 77 landsleiki að baki fyrir hönd Spánar.

Óvíst er hvenær hann spilar á ný og Spánverjinn sagðist hafa haldið um tíma að ferillinn væri á enda. „Ég hafði miklar áhyggjur því mér fannst ekkert gerast í því að finna hvert vandamálið væri því ég fór í aðgerð eftir aðgerð. Nú get ég grínast með þetta en ég er ekki hress með hve oft ég var skorinn upp. Ég fíflaðist í læknunum og aðstoðarfólki þeirra og þau viðurkenndu að þetta væri ekki eðlilegt. Sérstaklega ekki hjá íþróttamanni. Þau höfðu ekki séð svona meiðsli í langan tíma,“ sagði Cazorla.

Að lokum kom á daginn að hann væri með sýkingu í fætinum. „Þeir voru alls ekki vissir. Fyrst héldu þeir að bakteríurnar hefðu étið sig inn í sinina og væru komnar í beinið og að þeir yrðu að búa til nýja hásin. Það var svo mikið kjaftæði í kringum þetta,“ sagði Cazorla sem þrátt fyrir öll vandræðin hefur fengið nýjan samning hjá Arsene Wenger og verður því áfram í röðum Arsenal á komandi keppnistímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert