Gylfi í læknisskoðun hjá Everton á morgun

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt öruggum heimildum mbl.is hafa Swansea og Everton loksins náð samkomulagi um félagaskipti Gylfa Þórs Sigurðssonar frá Swansea til Everton.

Gylfi mun samkvæmt heimildum mbl.is gangast undir læknisskoðun hjá Everton á morgun og að henni lokinni mun hann skrifa undir samning við félagið.

Forráðamenn Swansea og Everton hafa átt í viðræðum um félagaskiptin síðustu vikurnar en Swansea hafði hafnað tveimur tilboðum í Gylfa Þór frá Everton áður en samkomulag náðist um vistaskiptin.

Talið er að Everton greiði á bilinu 45-50 milljónir punda fyrir Gylfa sem verður dýrasti leikmaður Everton frá upphafi og langdýrasti íslenski knattspyrnumaðurinn. Gylfi gæti leikið sinn fyrsta leik með Everton á mánudaginn þegar liðið sækir Manchester City heim í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar en í millitíðinni tekur Everton á móti Hajduk Split í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. 

Gylfi hefur leikið með Swansea undanfarin þrjú ár þar sem hann hefur átt frábæru gengi að fagna og var hann útnefndur leikmaður ársins af leikmönnum og stuðningsmönnum velska liðsins í vor líkt og í fyrra.

Breiðablik og FH eiga von á góðri summu þegar félagaskiptin ganga í gegn. Breiðablik kemur til með að fá á fimmta tug milljóna króna og FH mun fá rúmlega 30 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert