Ætla að bjóða Shaw nýjan samning

Luke Shaw hefur átt erfitt uppdráttar hjá Manchester United.
Luke Shaw hefur átt erfitt uppdráttar hjá Manchester United. AFP

Manchester United hyggst bjóða bakverðinum Luke Shaw nýjan eins árs samning en núgildandi samningur hans við Manchester-liðið rennur út eftir tímabilið.

Shaw, sem er 22 ára gamall, hefur átt erfitt uppdráttar síðan hann gekk í raðir Manchester United frá Southampton fyrir þremur árum. Hann var lengi frá keppni eftir að hafa fótbrotnað illa í byrjun tímabilsins 2015-16 og um tíma var óljóst hvort hann ætti afturkvæmt inn á völlinn á ný.

Shaw varð svo aftur fyrir meiðslum á síðustu leiktíð þegar hann sleit liðband í ökkla en hann vinnur nú hörðum höndum að því að komast í leikform. Hann mátti þola gagnrýni frá stjóra sínum í lok síðustu leiktíðar en Mourinho var ósáttur við viðhorf leikmannsins og fannst hann ekki leggja nógu mikið á sig. Enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Mourinho sé reiðubúinn að gefa Shaw tækifæri til að sýna sig og sanna og bjóða honum að framlengja samninginn við félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert