Er mikilvægari en þið getið ímyndað ykkur

José Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United.
José Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Óvíst er hvort belgíski miðjumaðurinn Marouane Fellaini geti spilað með Manchester United annað kvöld þegar liðið tekur á móti svissnesku meisturunum í Basel í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Fallaini get ekki tekið þátt í leiknum gegn Stoke á laugardaginn vegna meiðsla en United tapaði fyrstu stigum sínum í deildinni þegar liðið gerði 2:2 jafntefli.

„Fellaini æfði ekki í gær en við sjáum til hvað verður í dag. Hann er mikilvægari fyrir mig en þið getið ímyndað ykkur,“ sagði José Mourinho, stjóri United, á fréttamannafundi í dag.

Mourinho hefur ákveðið að Victor Lindelöf og Chris Smalling muni spila í miðvarðarstöðunum á morgun á kostnað þeirra Phil Jones og Eric Bailly sem hafa spilað alla fjóra leiki liðsins í deildinni á tímabilinu. Þeir taka út leikbann annað kvöld.

„Ég held ekki að Bailly og Jones séu betri en Smalling og Lindelöf. Þeir eru á sama stigi en eru öðruvísi leikmenn. Ég held að það sé auðveldara fyrir Lindelöf að spila í Meistaradeildinni heldur en í deildinni. Hann þarf tíma til að aðlagast úrvalsdeildinni,“ sagði Mourinho sem staðfesti að David de Gea muni verja mark United á morgun en Argentínumaðurinn Sergio Romero lék flesta leiki Manchester-liðsins í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert