„Rooney mun fá góðar móttökur“

Rooney á milli þeirra Leighton Baines og Gylfa Þórs Sigurðssonar.
Rooney á milli þeirra Leighton Baines og Gylfa Þórs Sigurðssonar. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, gerir ekki ráð fyrir öðru en að Wayne Rooney fái góðar móttökur þegar hann spilar með Everton gegn United á Old Trafford á sunnudaginn.

„Rooney er leikmaður Everton og ég ætla ekki að ræða um hann nema að því leyti að hann verðskuldar að fá viðurkenningu fyrir og eftir leikinn. Ég held að hann fái góðar móttökur sem hann á skilið,“ sagði Mourinho við fréttamenn í dag.

„Rooney er einn mikilvægasti leikmaðurinn í sögu Manchester United og áhorfendur munu sýna honum þá virðingu sem hann verðskuldar,“ sagði Mourinho en Rooney er markahæsti leikmaður Manchester United frá upphafi.

Hann lék með Manchester-liðinu frá árinu 2004 til 2017 en í sumar sneri hann aftur til síns uppeldisfélags, Everton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert