Gylfi skapar ekki jafn mikið og í upphafi

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, á hliðarlínunni í leik liðsins gegn …
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, á hliðarlínunni í leik liðsins gegn Burnley í dag. AFP

„Þegar þú spilar gegn liði sem verst af jafn miklum móð og Burnley gerði í þessum leik þá verður þú að vera skapandi í sóknaraðgerðum þínum. Okkur skorti hugmyndaflæði í þessum leik og þeir leikmenn sem eiga að skapa færin áttu ekki sinn besta leik,“ sagði Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, í samtali við Skysports, eftir 1:0-tap liðsins gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. 

„Gylfi Sigurðsson og Wayne Rooney byrjuðu vel eftir að þeir gengu til liðs við okkur. Gylfi skoraði gott mark í sínum fyrsta leik, en hann hefur ekki náð að fylgja því eftir í undanförnum leikjum. Þessir leikmenn náðu líkt og aðrir leikmenn liðsins ekki að brjóta á bak aftur sterka vörn Burnley,“ sagði Koeman um lykilleikmenn sína í sóknarleiknum. 

Everton hefur gengið illa að finna stöðugleika uppi á síðkastið, en liðið hefur einungis haft betur í einum af síðustu fimm deildarleikjum sínum. Everton hefur einungis sjö stig eftir sjö umferðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert