Mourinho bjóst við breytingum frá Klopp

Jose Mourinho var ekki ánægður með breidd leikmannahóps síns í …
Jose Mourinho var ekki ánægður með breidd leikmannahóps síns í dag. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, virtist vera manna fegnastur að hafa fengið eitthvað út úr leiknum við Liverpool í gær en liðin skildu jöfn, 0:0, á Anfield, í leik þar sem varnarleikur var í aðalhlutverki hjá gestunum.„Þetta er jákvætt stig,” sagði Mourinho.

„Þeir spiluðu með mjög öfluga miðju, Can, Wijnaldum, Henderson, í 90 mínútur en í síðari hálfleik átti ég enga valmöguleika í stöðunni til þess að breyta gangi leiksins. Ég held að þeir hafi verið hræddir við skyndisóknir okkar,” sagði José Mourinho eftir leik við BBC.

„Ég reyndi að bæta okkar leik sóknarlega og gera þeim bilt við, en þeir héldu sínu sterka skipulagi á miðjunni. Ég var að bíða eftir að hann (Klopp) myndi brjóta upp leikinn meira. En hann gerði það ekki,” sagði Mourinho og sagði að sínir menn hefðu á endanum verið búnir á því á miðjusvæðinu.

„Mótherjinn var góður í dag. En við lékum okkar leik og í fyrri hálfleik höfðum við góða stjórn á leiknum og fengum fín færi. Í síðari hálfleik var Matic þreyttur og ég var ekki með neinar lausnir á bekknum,” sagði Mourinho.

Inn af bekknum hjá United í dag komu þeir Victor Lindelöf, Jesse Lingard og Marcus Rashford.  Af útileikmönnunum voru Daley Blind, Juan Mata og Axel Tuanzebe ónotaðir varamenn en þeir Michael Carrick, Maraoune Fellaini og Paul Pogba eru allir meiddir hjá United.

„Ég þurfti á bekknum að halda, en ég var ekki með neinn bekk,” sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert