United með fullt hús - Chelsea steinlá

Liðsmenn Manchester United fagna marki á Old Trafford í kvöld.
Liðsmenn Manchester United fagna marki á Old Trafford í kvöld. AFP

Manchester United hélt sigurgöngu sinni áfram í Meistaradeild Evrópu í kvöld en liðið hafði betur gegn Benfica, 2:0, á Old Trafford og hefur þar með unnið alla fjóra leiki sína í riðlinum.

Manchester United þarf eitt stig úr síðustu tveimur leikjunum til að komast áfram í 16-liða úrslitin en þar sem CSKA Moskva vann Basel er sætið í 16-liða úrslitunum enn ekki orðið öruggt fyrir Manchester-liðið. Markvörðurinn ungi Mile Svilar varð fyrir því óláni að skora sjálfmark á lokamínútu fyrri hálfleiks eftir að hafa varið vítaspyrnu frá Anthony Martial fyrr í leiknum. Daley Blind innsiglaði síðan sigur United með marki úr vítaspyrnu á 78. mínútu leiksins. United hefur 12 stig en Basel og CSKA Moskva 6. Benfica er án stiga.

Chelsea mátti þola 3:0 tap gegn Roma á Ítalíu. Stephan El Shaarawy skoraði tvö fyrstu mörkin og Diego Perotti það þriðja. Í hinum leik riðilsins varð Atlético Madrid að sætta sig við 1:1 jafntefli gegn Qarabag. Roma komst á toppinn en liðið er með 8 stig, Chelsea 7, Atlético Madrid 3 og Qarabag 2.

Paris SG tryggði sér farseðilinn í 16-liða úrslitin en liðið tók Anderlecht í kennslustund og vann, 5:0. Layvin Kurzawa var maður leiksins en hann skoraði þrennu. Paris SG er með 12 stig, Bayern München hefur 9 stig eftir 2:1 útisigur gegn Celtic sem hefur 3 stig en Anderlecht er án stiga. Bayern er komið í 16-liða úrslitin.

Barcelona og Olympiacos gerðu markalaust jafntefli í Grikklandi en Börsungar eru svo gott sem komnir áfram. Þeir hafa 10 stig í efsta sæti. Juventus hefur 7 stig en liðið gerði 1:1 jafntefli við Sporting á útivelli þar sem Gonzalo Higuain jafnaði metin fyrir Juventus á 79. mínútu leiksins. Sporting hefur 4 stig en Grikkirnir eru neðstir með 1 stig.

Úrslitin í leikjunum:

A-riðill:
Basel - CSKA, 1:2
(Luca Zuff 32. - Alan Dzagoev 65., Pontus Wernbloom 79.)

B-riðill:
Celtic - Bayern München, 1:2
(Callum McGregor 74. - Kingsley Coman 22., Javier Martinez 77.)
Paris SG - Anderlecht, 5:0
(Marco Verratti 28., Neymar 45., Layvin Kurzawa 52., 72., 78.)

C-riðill:
Atlético Madrid - Qarabag, 1:1
(Thomas 56. - Michel 40.) Rauð spjöld: Pedro Henrique (Qarabag 59.), Stefan Savic (Atlético 88.)

Roma - Chelsea 3:0
(Stephan El Shaarawy 1., 38. Diego Perotti 63.)

D-riðill:
Olympiacos - Barcelona, 0:0
Sporting - Juventus, 1:1
(Bruno Cesar 20. - Gonzalo Higuain 79.)

Man. Utd 2:0 Benfica opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er 3 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert