Mourinho öskuillur út í enska landsliðið

José Mourinho er ekki sáttur.
José Mourinho er ekki sáttur. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, er ævareiður út í forráðamenn enska landsliðsins fyrir meðhöndlun sína á varnarmanninum Phil Jones.

Jones hefur verið að glíma við meiðsli, en Mourinho segir að læknateymi landsliðsins hafi gefið honum sex sprautur fyrir vináttuleik gegn Þjóðverjum fyrir viku síðan svo hann gæti spilað. Hann meiddist svo í leiknum og verður ekki með United gegn Newcastle um helgina.

Hann segir að Jones hafi fengið sprautu síðdegis á leikdag, en í upphitun hafi hann fundið fyrir meiðslunum sem hann hefur verið að glíma við. Hann hafi þá fengið fimm sprautur til viðbótar fyrir upphafsflautið, en fór svo meiddur af velli eftir um 20 mínútur.

„Á mínum 17 árum sem knattspyrnustjóri hef ég aldrei heyrt um að menn hafi verið sprautaðir upp til þess að geta spilað vináttuleik. Ég er enginn engill og læt sprauta menn fyrir mikilvæga leiki, en aldrei vitað að slíkt sé gert fyrir vináttuleiki,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert