Conte var hræddur í lendingunni

Antonio Conte.
Antonio Conte. AFP

Ítalinn Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur kvartað undan þéttu leikskipulagi Chelsea þessa dagana við fjölmiðla og ekki bætti úr skák að flugferð liðsins frá Aserbaídsjan í gærmorgun eftir leik liðsins í Meistaradeild Evrópu var ekki góð. Conte segist sjálfur hafa verið nokkuð smeykur en liðið lenti kl. 6 í gærmorgun.

Lið Chelsea þurfti að fljúga 9.700 kílómetra, fram og til baka til Bakú, og kom til baka í gærmorgun í slæmu veðri og þurftu flugmenn vélarinnar að gera tvær tilraunir til þess að lenda á Gatwick-flugvelli. Í hádeginu í dag flaug svo liðið til Liverpool þar sem liðin mætast á morgun, laugardag.

„Það var mikill vindur. Þegar við reyndum að lenda í fyrsta skiptið var það ómögulegt. Svo reyndi flugstjórinn að lenda aftur og tókst það.En eins og þú veist þá ertu aðeins smeykur í svona aðstæðum. Maður verður aðeins hræddur. En flugstjórinn stóð sig vel,“ sagði Conte við The Guardian.

„Það er ekki einfalt mál að fara út úr húsi kl. 6. Það er heldur ekkert einfalt mál að hvíla sig og ná endurheimt á aðeins einum degi og að undirbúa sig fyrir mikilvægan leik. Það er ekki rétt – ég verð að vera hreinskilinn með það. En við þurftum að gera það og áttum góða æfingu í dag þar sem við reyndum að undirbúa okkur,“ sagði Conte.

Conte gerði Chelsea að enskum meisturum á sínu fyrsta tímabili sem knattspyrnustjóri liðsins síðastliðið vor. Liðið hefur 25 stig í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og mætir Liverpool, sem 22 stig í 5. sæti, kl. 17:30 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert