Man.Utd nýtti færin betur en Arsenal

Manchester United bar sigurorð af Arsenal, 3:1, þegar liðin mættust í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Emirates Stadium í dag. 

Leikmenn Arsenal færðu Manchester United fyrstu tvö mörkin á silfurfati. Manchester United komst yfir á strax á fjórðu mínútu leiksins. Laurent Koscielny átti þá skelfilega sendingu beint á Antonio Valencia sem skoraði með föstu og hnitmiðuðu skoti. 

Jesse Lingard tvöfaldaði svo forystu Manchester United skömmu síðar. Lingard vann þá boltann af Skhodran Mustafi á hættulegum stað. Anthony Martial aðstoðaði Lingard við að koma honum í gott færi og Lingard skoraði með laglegu skoti.

Arsenal hóf seinni hálfleikinn af miklum krafti og Alexandre Lacazette minnkaði muninn í upphafi seinni hálfleiks. Leikmenn Arsenal fengu urmul af færum í leiknum til þess að skora, en David de Gea var í feiknaformi í marki Manchester United og sá til þess að Arsenal skoraði einungis eitt mark.

Pogbar verður í leikbanni í toppslagnum

Jesse Lingard var síðan aftur á ferðinni þegar rúmur stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleik. Lingard batt þá endahnútinn á vel útfærða skyndisókn Manchester United. Romelu Lukaku kom Lingard í góða stöðu. Lingard fann síðan Paul Pogba sem fann Lingard á nýjan leik. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Lingard sem renndi boltanum í autt markið af stuttu færi.

Leikmenn Manchester United léku einum leikmanni færri í rúmlega korter, en Pogba var vísað af velli með rauðu spjaldi fyrir að traðka á Hector Bellerín. Það kom hins vegar ekki að sök og niðurstaðan 3:1-sigur Manchester United sem er í öðru sæti deildarinnar með 35 stig eftir þennan sigur. Arsenal er hins vegar í fimmta sæti deildarinnar með 28 stig.

Manchester United mætir toppliði deildarinnar, Manchester City, í næstu umferð deildarinnar um næstu helgi. Manchester City hefur fimm stiga forskot á Manchester United fyrir þann leik.

Pogba nagar sig líklega í handarbökin fyrir glórulausa ákvörðun sína sem varð til þess að honum var vísað af velli með rauðu spjaldi í leiknum í dag og hann tekur út leikbann í toppslagnum gegn Manchester City.   

Arsenal 1:3 Man. Utd opna loka
90. mín. Ashley Young (Man. Utd) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert