Gylfi segir sjálfstraustið vera að koma

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson segir að sjálfstraustið sé smám saman að koma hjá liði Everton sem í gær vann sinn annan sigur í röð í fyrsta leiknum undir stjórn Sam Allardyce, 2:0 gegn Huddersfield.

Gylfi skoraði fyrra markið og gerði þar með fyrsta mark félagsins eftir að Allardyce tók við en það gerði hann á 47. mínútu eftir laglega sendingu frá Dominic Calvert-Lewin.

„Sjálfstraustið er að koma, en það tók langan tíma. Við unnum góðan sigur á miðvikudaginn og fylgdum því eftir í dag. Með þessum sigrum, mörkum og því að halda tvisvar hreinu erum við vonandi að komast á rétta braut," sagði Gylfi við vef Everton en sigurinn fleytti liðinu alla leið upp í 10. sæti deildarinnar.

„Það er með ólíkindum hvað tveir sigrar í röð geta breytt miklu. Við erum komnir upp í miðja deild á ný en við erum ekki sáttir við það, við viljum ná lengra," sagði Gylfi sem fíflaðist aðeins í Calvert-Lewin þegar rætt var um markið.

„Ég er ekki viss um að hann hafi ætlað að gera þetta - en hann sagði það svo við trúum því," sagði Gylfi og hló. „Nei, þetta var flott sending og það var gott að ná að skora þetta fyrsta mark sem lagði grunninn að sigrinum. Úrslitin eru góð en Huddersfield á hrós skilið. Þeir voru sterkari í fyrri hálfleik og mér fannst þeir byrja seinni hálfleikinn  betur en við. En við skoruðum, fengum meðbyr, og gerðum svo út um þetta með seinna markinu," sagði Gylfi.

Allardyce færði Gylfa og Lennon framar

Allardyce sagði eftir leikinn að hann hefði gert taktíska breytingu í hálfleik með því að segja Gylfa og Aaron Lennon að vera framar á vellinum þegar Everton væri með boltann og opna fyrir bakverðina til að koma upp með boltann.

Gylfi sagði að þessi áherslubreyting hefði gert útslagið um að hann hefði verið á réttum stað til að skora markið og hrósaði Allardyce fyrir að koma skilaboðum sínum til leikmanna vel til skila, enda þótt hans fyrsta æfing með liðið hefði ekki verið fyrr en á föstudagsmorgni.

„Hann kom sínum áherslum vel til skila, sérstaklega í hálfleik. Þetta voru einföld og ákveðin skilaboð. Við vissum hverju við þyrftum að breyta í seinni hálfleik og það gekk upp. Hann sagði okkur að færa okkur framar á völlinn. Við vorum of aftarlega í fyrri hálfleik og leyfðum Huddersfield að vera of mikið með boltann. 

Hann hefur komið mjög jákvæður inn í þetta, er ekki að flækja hlutina, og við vitum til hvers hann ætlast. Þetta voru góð úrslit, hann var ánægður með að halda hreinu og fá þrjú stig.

Við getum bætt okkur og spilað betur, sérstaklega betur en í fyrri hálfleik, en þetta er góð byrjun og við erum ánægðir. Aðalmálið í fótbolta er að vinna leikina og þegar það tekst eru allir glaðir," sagði Gylfi Þór Sigurðsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert