Besta staða Burnley í 42 ár

Ashley Barnes fagnar sigurmarki Burnley í gærkvöld ásamt samherjum sínum.
Ashley Barnes fagnar sigurmarki Burnley í gærkvöld ásamt samherjum sínum. AFP

Burnley, lið Jóhanns Berg Guðmundssonar, komst í gærkvöld í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu sem er besta staða liðsins í 42 ár.

Tímabilið 1974-75 var Burnley lengi vel í baráttu um enska meistaratitilinn og var í þriðja sætinu þegar komið var fram undir lok marsmánaðar. Þá missti liðið flugið og hafnaði að lokum í tíunda sæti en Derby varð enskur meistari.

Ári síðar  féll Burnley og fór um skeið alla leið niður í D-deildina en hefur rétt sig við á undanförnum árum og er nú í afar óvæntri stöðu í úrvalsdeildinni, inná milli stóru liðanna sem yfirleitt eiga sex efstu sætin frátekin.

„Stuðningsmenn okkar njóta þess hve vel okkur hefur gengið og þeir mega það svo sannarlega. Fótbolti snýst ekki bara um staðreyndir, heldur líka um drauma. Það er erfitt verkefni að vinna leik í þessari deild en Leicester galopnaði fyrir alla drauma í fótboltanum,“ sagði knattspyrnustjórinn Sean Dyche eftir sigurinn á Stoke, 1:0, í gærkvöld þar sem Ashley Barnes skoraði sigurmarkið á 89. mínútu.

Burnley hélt marki sínu hreinu í áttunda sinn í fyrstu sautján leikjunum og aðeins Manchester United hefur gert betur.

„Við fundum leiðina til sigurs og skoruðum gott mark. Okkar lið er ekki fullkomið, það er enn í mótun og stöðugt að bæta sig. Ég held mig á jörðinni því í þessari deild ertu étinn lifandi ef þú misstígur þig, en við höfum sett stefnuna á að ná eins langt og mögulegt er í vetur,“ sagði Dyche.

Sean Dyche er vinsæll í Burnley.
Sean Dyche er vinsæll í Burnley. AFP

Burnley er fyrir ofan Liverpool, Arsenal og Tottenham, sem öll gætu komist uppfyrir Jóhann, Dyche og félaga með sigrum í kvöld en stuðningsmenn liðsins njóta augnabliksins og eflaust eru einhverjir þeirra búnir að ramma inn stöðuna í deildinni eftir leiki gærkvöldsins:

Manchester City 46 stig, Manchester United 35, Chelsea 35, Burnley 31, Liverpool 30, Arsenal 29, Tottenham 28.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert