Gary O'Neil, knattspyrnustjóri Bournemouth, lét í ljós óánægju sína með myndbandsdómgæsluna í viðtali eftir 2:0 tap liðsins gegn West Ham í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í gær.
O´Neil sagðist vera ósammála báðum ákvörðunum en hann vildi fá aukaspyrnu í aðdraganda fyrra marks West Ham þegar Thilo Kehrer handlék knöttinn og þá taldi hann að hönd Jordan Zemura hafi verið í náttúrulegri stöðu þegar hann fékk dæmda á sig vítaspyrnu undir lok leiksins.
„Í fyrra markinu var hönd Kehrer að mínu mati ekki í náttúrulegri stöðu og svo fáum við á okkur vítaspyrnu þegar hönd Zemura var að mér finnst í náttúrulegri stöðu. Þetta er fáránlegt. Við höfum fengið tíu ákvarðanir myndbandsdómara gegn okkur síðan ég kom,“ sagði O'Neil.
Lið Bournemouth var ósigrað í fyrstu sex leikjunum í ensku úrvalsdeildinni undir stjórn Gary O'Neil, síðan hann tók við í ágúst eftir að Scott Parker var sagt upp störfum. Liðið hefur nú tapað síðustu tveimur leikjum sínum í deildinni gegn Southampton og West Ham og situr í 12.-14. sæti með 13 stig að loknum 12 leikjum.