Jenson Button hjá Honda var í þessu að vinna sigur í ungverska kappakstrinum í Búdapest. Er það fyrsti sigur hans í formúlu-1. Annar varð Pedrdo de la Rosa á McLaren og þriðji Nick Heidfeld á BMW, en það er fyrsta pallsæti liðsins. Rubens Barrichello undirstrikaði ágæti Hondunnar með fjórða sæti. Fernando Alonso á Renault var með drjúga forystu er bíll hans bilaði 19 hringjum frá marki. Michael Schumacher á Ferrari féll úr leik er þrír hringir voru eftir vegna bilunar.
Gríðarlegur fögnuður braust hjá liðsmönnum Honda er Button ók yfir marklínuna og ekki minnkaði gleðin er hann steig upp úr bíl sínum í lokahöfn. Hann hóf kappaksturinn í 14. sæti vegna mótorskipta í gær og sótti jafnt og þétt upp á við og dró Alonso uppi rétt fyrir annað stopp sitt af þremur.
Sigurinn þykir löngu tímabær en kappaksturinn var sá 113. á ferli Buttons.
Pólverjinn Robert Kubica hjá BMW stóð sig vel í sínum fyrsta kappakstri og vann stig með því að koma á mark í sjöunda sæti. Er hann einn fárra ökuþóra til að vinna stig í fyrsta móti.
Brautirnar voru rennblautar og rigning er kappaksturinn hófst og riðlaðist röð ökuþóra mjög strax á fyrsta hring. Schumacher hóf keppni í 11. sæti og Alonso í því 14. en þeir sóttu grimmt í bleytunni og voru í fjórða og sjötta sæti að loknum fyrsta hring.
Hring seinna var Alonso kominn í fimmta sæti og ógnaði Schumacher. Ferrariþórinn varðist örvæntingarfullt tilraunum Alonso til að taka fram úr og varð að lokum að gefa sig á þriðja hring. Virtust regndekk Michelin virka mun betur en regndekk Bridgestone því ökuþórar á þeim síðarnefndu áttu í miklum erfiðleikum með veggrip.
Alonso sótti og sótti og hafði dregið Kimi Räikkönen uppi er McLarenþórinn tók sitt fyrsta dekkja- og bensínstopp í lok 17. hrings. Jók heimsmeistarinn forystu sína smám saman og á 25. hring dró hann Schumacher uppi og fór léttilegar fram úr honum en í fyrra skiptið.
Á 26. hring var pallsæti og reyndar kappaksturinn úr sögunni fyrir Räikkönen er hann áttaði sig ekki á að Vitantio Liuzzi virtist ætla hleypa honum fram úr og hægði ferðina mjög í beygju. Skall Räikkönen á Toro Rosso-bílnum og skemmdust báðir það mikið að ekki var frekar ekið. Vegna árekstursins var öryggisbíllinn kallaður út í brautina og var þar fimm hringi meðan bílarnir tveir voru fjarlægðir og brak úr þeim hreinsað upp.
De la Rosa var rétt á eftir Räikkönen á þessu augnabliki en tókst að forðast havaríið. Ók ekki síður vel en í tímatökunum í gær og hlaut að lokum annað sætið. Räikkönen missti hins vegar af tækifærinu að vinna sigur í sínu hundraðasta móti í formúlunni-1 og um leið færa McLaren fyrsta sigurinn á árinu.
Schumacher og Button stoppuðu báðir er 24 hringir voru eftir, Schumacher fékk millidekk en Button hélt áfram á sínum slitnum dekkjum, enda átti hann eftir að stoppa aftur eftir bensíni. Á þessu stigi voru brautirnar farnar að þorna og hlaut Button fyrsta sætið er Alonso féll úr leik vegna drifskaftsbilunar.
Um tveimur hringjum seinna stoppaði hann aftur, fékk þurrdekk og bensínskvettu og varð ekki ógnað. Schumacher komst um tíma alla leið upp í annað sætið og freistaði þess að komast alla leið á mark á millidekkjunum. Skiljanlegt í ljósi þess að Alonso var fallinn úr leik og möguleiki á að minnka forskot hans í stigakeppni ökuþóra enn frekar.
Svo hratt slitnuðu dekk Schumacher að hann átti orðið í erfiðleikum á bremsusvæðum og á þurrum línum í beygjum að hann varð á endanum auðveld bráð fyrir de la Rosa og Heidfeld og síðar Barrichello. Svo hart hafði Schumacher gengið að Ferrarifáknum í tilraunum sínum að eitthvað gaf sig í bílnum svo hann átti ekki annarra kosta völ en aka inn að bílskúr og hætta. Taldist engu að síður níundi á mark. Mátti þá sjá að dekkin voru orðin það slitin, langt inn í striga, að efast mætti um að þau hefðu haldið alla leið á mark.
Vegna brottfalls Alonso og Schumacher breytist staðan í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra ekkert. Alonso hefur áfram 11 stiga forskot þegar fimm mót eru eftir, 100 stig gegn 89. Og þar sem Felipe Massa var sá eini ökuþóra Renault og Ferrari sem komst á mark og það í stigasæti - varð áttundi - minnkaði um eitt stig. Hefur Renault 149 stig en Ferrari 140.