Lewis Hamilton bað McLarenliðið afsökunar í morgun á því að hafa hunsað liðsfyrirmæli í tímatökunum í Búdapest í gær, en það leiddi til atvika sem skaðaði liðið að því leyti til að það var svipt stigum fyrir ungverska kappaksturinn.
Eftirlitsmenn mótsins ákváðu í gærkvöldi að McLaren fengi í refsingarskyni engin stig út úr kappakstrinum í stigakeppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða. Þá var Fernando Alonso færður aftur um fimm sæti á rásmarki fyrir að tefja fyrir Hamilton undir lok tímatökunnar.
Vegna refsingar Alonso hlaut Hamilton ráspólinn en hann er í augum liðsins aðal sökudólgurinn að baki refsingunni sem liðið og Alonso hlutu.
Hamilton gaf til kynna í morgun að staða hans innan liðsins væri slæm. „Ég er í miklum vandamálum gagnvart yfirmanni mínum,“ sagði hann við ensku sjónvarpsstöðina ITV.
Hermt er að þung orð hafi fallið í talstöðinni milli Dennis og Hamiltons við lok tímtökunnar.
Hamilton er sagður hafa gefið einkar ruddalegar yfirlýsingar í garð liðsins og einnig í garð Dennis sjálfs. Svo misboðið var Dennis að hann fleygði frá sér heyrnartólinu á stjórnborðinu, en í upphafi voru það talin vera viðbrögð hans við því að Alonso vann ráspólinn.
Hamilton staðfestir að atvikið hafi skapað þrúgandi andrúmsloft innan liðsins.
„Ég fór á hinn venjubundna vélfræðingafund og þið getið bara ímyndað ykkur andrúmsloftið, mér leið eins og ég hefði gert eitthvað á hlut liðsins.
Þetta finnst mér allt nokkuð skrítið. Ron var virkilega reiður við mig, ég veit ekki hvort hann er það ennþá. Þegar maður hlýðir ekki liðsfyrirmælum frá yfirmanni, sem gefið hefur manni tækifæri, þá er staðan erfið.
Á endanum verður maður þó að standa fyrir það sem maður trúir á og hvað manni finnst. Ég ákvað [að óhlýðnast liðinu] þetta og þannig fór það.
Liðið útskýrði málið alveg og ég baðst afsökunar á framferði mínu. Ég bað Ron afsökunar og sagði honum að svona lagað myndi ekki gerast aftur,“ sagði Hamilton við ITV.
Hamilton sagðist þrátt fyrir allt ekki taka skýringum Alonso á lengd stoppsins umdeilda. „Ég held hann hafi ekki stórkostlega afsökun á því hvað gerðist, og slíkt veldur ýmsu.
Í hreinskilni sagt hefur okkur Fernando lynt mjög vel í ár. Við höfum spilað Playstation saman hér. Samræður okkar eru ekki djúpstæðar, ég reyni að halda þeim uppi, en það er ekki auðvelt,“ sagði Hamilton.