Lewis Hamilton hjá McLaren hefur hlotið hið eftirsótta gullstýri útbreiddasta blaðs Þýskalands, Bild, fyrir framúrskarandi árangur á árinu 2007. Verðlaunin njóta mikillar viðurkenningar og þykja ein hin eftirsóttustu í Evrópu.
Það var enginn annar en Mika Häkkinen, síðasti heimsmeistari ökuþóra úr röðum McLaren, sem afhenti verðlaunin við athöfn í Berlín í gærkvöldi.
„Það eru mikil forréttindi fyrir mig að vera hér í kvöld, sem liðsmaður Mercedes-Benz. Það er mikill heiður að þiggja þessi verðlaun. Að baki mér er frábært lið og þótt við ynnum ekki heimsmeistaratitilinn í ár var árangurinn langt umfram allar væntingar mínar,“ sagði Hamilton í þakkarræðu.