Sjónvarpsstöðin Sýn hefur ráðið Gunnlaug Rögnvaldsson sem umsjónarmann útsendinga sinna frá formúlu-1, en stöðin tekur í ár við útsendingum frá íþróttinni af ríkissjónvarpinu.
Í fréttatilkynningu frá Sýn segir að stöðin hyggist stórefla umfjöllunina um formúluna sem hafi á liðnum árum áunnið sér sess sem eitt allra vinsælasta íþróttaefni í íslensku sjónvarpi.
„Ég er mjög spenntur á að takast á við nýjan starfsvettvang og að geta víkkað umfjöllun um formúlu-1 til muna. Það verða margar spennandi nýjungar á Sýn, sem verið er að leggja grunn að þessa dagana", sagði Gunnlaugur um ráðninguna.
„Ég hef gengið með ýmsar hugmyndir í maganum sem ekki hefur verið hægt að útfæra til þessa á Íslandi, en það er hugur í Sýnar-mönnum. Við munum heimsækja ökumenn, lið og mótsstaði á árinu og kynda hressilega undir byrjun tímabilsins með þáttum um undirbúning keppnisliða fyrir tímabilið. Taka púlsinn og vera á staðnum.
Þá stendur til að virkja áhorfendur meira í umfjöllun um formúlu-1 og skapa stemmningu þar að lútandi um land allt með gestum í sjónvarpssal, viðtölum úti á landi og leikjum ýmis konar, fyrir áhorfendur á öllum aldri,“ segir Gunnlaugur.